Gunnsteinn Skúlason, eigandi Sólningar, hefur boðið 275.000 hluti í VBS Fjárfestingabanka til sölu á genginu 10 kr á hlut. Samkvæmt því er verið að meta bankann á um fimm milljarða króna. Gunnsteinn hefur fengið lítil viðbrögð við auglýsingu sinni en samkvæmt þessu gengi vill hann fá 2,75 milljónir króna fyrir bréf sín.

Gunnsteinn sagðist hafa átt bréfin síðan 2007. Þá sagðist hann hafa keypt þau vegna þess að hann hefði haft trú á bankanum og uppgangi í þjóðfélaginu. Fyrir honum vekti eingöngu að selja bréfin sem eru veðbandslaus. Gunnsteinn sagði að það verð sem hann væri að óska eftir núna væri mun lægra en það verð sem hefði verið á bréfunum þegar hann keypti.

Engin viðskipti með bréf bankans að undanförnu

Að sögn Jóns Þórissonar, forstjóra VBS Fjárfestingabanka, hafa ekki verið nein viðskipti með bréf í bankanum að undanförnu. Jón sagði að svo virtist sem hlutabréf væru ekki viðskiptavara í augnablikinu hvaða nafni sem fyrirtækið nefnist. Öll viðskipti gangi út á tryggingar og sagðist hann telja að það sé nokkuð í að hlutabréf verði söluvara að nýju.

Jón sagði að síðustu viðskipti sem honum væri kinnugt um með bréf í bankanum hefðu verið á genginu 25 og það hefði verið fyrir hálfu ári síðan. Hann sagðist ekki vita við hvaða aðstæður þau viðskipti hefðu farið fram.

Afkoma VBS fjárfestingarbanka hf. á fyrstu sex mánuðum ársins 2009 er neikvæð um 4.325 milljónir króna. Samkvæmt árshlutareikningi tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2009 nemur eigið fé 4,7 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall bankans (CAD) 15,2%.