David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, útilokar ekki að samsteypustjórn Íhaldsflokksins og breska Sjálfstæðisflokksins (UKIP) líti dagsins ljós að loknum þingkosningum í vor.

Forsætisráðherrann, sem var í viðtali á BBC1 í dag, var tvívegis spurður hvort hann gæti hugsað sér að starfa með UKIP en kom sér undan því að svara spurningunni. Hann sagðist ekki vilja útiloka neitt stjórnarmynstur fyrir kosningar. Hljóðið í Cameron virðist því hafa breyst, en hann hefur áður gefið í skyn að hann vilji ekki starfa með UKIP, sem sé fullur af mis gáfulegum einstaklingum sem daðri við kynþáttafordóma. UKIP er róttækur hægri flokkur sem hefur það að markmiði að Bretland gangi úr Evrópusambandinu.

Nigel Farage, leiðtogi UKIP, vildi ekki heldur útiloka samstarf við Íhaldsflokkinn, þegar hann var inntur eftir því í viðtali við Sky News, þrátt fyrir að útiloka samstarf við aðra flokka, til dæmis Verkamannaflokkinn. Hann hafði áður sagt að hann gæti ekki hugsað sér að vinna með Cameron.

Þingkosningar í Bretlandi verða haldnar þann 7. maí næstkomandi.