Fjármálaráðgjöf Capacent spáir rúmlega 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs í febrúar. Á sama tíma fyrir ári síðan hækkaði vísitala neysluverðs um 0,2% og hækkar því ársverðbólgan úr 0,8% í 1,2% gangi spái eftir. Að þessu sinni eru ráðandi þættir í hækkun vísitölu neysluverðs, hækkanir í kjölfar útsöluloka, hækkun fasteignaverðs og hækkun flutningskostnaðar vegna eldsneytisverðshækkunar. Kemur þetta fram í tilkynningu.

Þar segir að mikil hækkun á raunvirði fasteigna ætti ekki að koma á óvart en raunverð fasteigna er enn nokkuð frá því sem það var á árunum fyrir bankahrun. Lítið hefur verið byggt og Íslendingum fjölgað um 10 þúsund frá árinu 2008. Erfitt sé að fullyrða að hækkun fasteignaverðs nú sé til marks um mikla eftirspurnarþenslu. Vel megi færa fyrir því rök að að hækkun fasteignaverðs nú sé leiðrétting.

Fjármálaráðgjöf Capacent gerir ráð fyrir 0,8% hækkun á fasteignaverði, sem samsvarar um 10% nafnverðshækkunar á ársgrundvelli. Ekki er gert ráð fyrir mikilli hækkun leiguverðs en leiguverð í vísitölu neysluverðs byggir að hluta á leigu í félagslegu húsnæði sem hækkaði töluvert um áramótin. Samtals leggur húsnæðisliðurinn 0,13% til hækkunar vísitölu.