Kröfulýsingarfresti í þrotabú einkahlutafélagsins Caramba-hugmyndir og orð er lokið. Ekki liggur fyrir hversu háum kröfum var lýst í búið. Enn á eftir að taka afstöðu til þeirra. Guðbjörg Benjamínsdóttir skiptastjóri vildi ekki tjá sig um stöðu þrotabúsins að svo stöddu.

Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun september með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Caramba var í eigu Björns Inga Hrafnssonar, eins eiganda Vefpressunar og fyrrum borgarfulltrúa, og Hólmfríðar Rósar Eyjólfsdóttur. Vefpressan á meðal annars netmiðlana Pressan, Eyjuna, Menn og Bleikt.

Fjallað er um Caramba í Rannsóknarskýrslu Alþingis, í kafla sem fjallar um fjölmiðlamenn sem fengu lán frá bönkunum. Lán til Björns Inga voru öll veitt af Kaupþingi. Annars vegar voru lánin til Björns Inga beint, og voru hæst í september 2008 rúmar 100 milljónir króna. Hins vegar voru lán veitt til Caramba. Lánin voru því sem næst öll í formi framvirkra samninga um hlutabréf.

Hæstu lánasamningarnir voru vegna hlutabréfa í Kaupþingi, Exista, Bakkavör og SPRON. „Þá vekur athygli að í september 2008 gerði félagið nýja samninga um kaup á hlutabréfum Exista, sem námu um 230 milljónum króna. Við gerð þeirra samninga ríflega tvöfölduðust skuldir félagsins.“ Hæst námu skuldir Björns Inga og félags hans um 563 milljónum króna í lok september 2008.

Eftir að Rannsóknarskýrslan kom út tilkynnti Björn Ingi að hann hætti tímabundið sem ritstjóri Pressunar.