Carlos Slim hefur lengi vel verið auðugasti íbúi Mexíkó og hefur því án efa fengið að finna fyrir óvissunni sem myndaðist á meðan kosningabarátta Donald Trump var í fullum gangi. Samkvæmt Bloomberg fór auður hans úr 55 milljörðum dala, niður í 48,1 milljarð.

Carlos Slim er þó bjartsýnn og telur að Mexíkó þurfi að snúa vörn í sókn. Að hans mati er mikilvægt að einbeita sér að innri vexti, en hann telur að íbúar landsins þurfi ekki að örvænta. Slim telur einnig að aðgerðir Trumps geti til langs tíma haft góð áhrif á efnahag Mexíkó, sérstaklega ef Trump nær að bæta kjör Bandaríkjamanna. Aukin hagvöxtur í Bandaríkjunum mun að hans mati geta leitt til þess að eftirspurn eftir Mexíkóskum varning aukist og hafi þar með góð áhrif á Mexíkó.