Kanadamaðurinn Mark Carney tók við af Mervyn King sem seðlabankastjóri í Englandsbanka í dag. Fjölmiðlar fylgdu honum eftir þegar hann tók lest í vinnuna í morgun. Breska dagblaðið Guardian segir hann fá 874 þúsund pund í laun á ári og verði hann einn af þeim ríkisstarfsmönnum sem hefur hæstu launin í Bretlandi.

Blaðið segir George Osborne bera miklar væntingar til Carney og hafa trú að honum takist að koma landinu upp úr efnahagslægðinni.

Carney hóf reyndar störf í gær en samkvæmt venju fylgdist hann með krikketleik á vegum bankans. Sir Mervyn King, sem setið hefur í bankastjórastólnum í áratug, fylgdist sömuleiðis með leiknum og tók hann þátt í honum. Carney sat hins vegar á strák sínum.