Caterpillar hefur keypt námuvélaframleiðandann Bucyrus International Inc fyrir 7,6 milljarða dollara. Auk yfirtöku skulda upp á 1 milljarð dollara er heildarverð sem greitt er fyrir Bucyrus 8,6 milljarðar dollara. Er þetta stærsta fyrirtækjayfirtaka Caterpillar í 85 ára sögu fyrirtækisins samkvæmt frétt Reuters. Þykir kaupverðið býsna hátt eða 92 dollarar staðgreiddir á hlut sem er 32% yfir verði á bréfum fyrirtækisins á markaði sl. föstudag.

Velta Caterpillar á árinu 2009 var um 32,4 milljarðar dollara. Doug Oberhelman, forstjóri Caterpillar, sagði í yfirlýsingu á mánudag að ástæður kaupanna hafi verið að markaðurinn hafi í mörg ár verið að kalla eftir því að Caterpillar yki starfsemi sína í framleiðslu námuvéla.

Bucyrus var stofnað í Ohio fyrir 125 árum og var gröfubúnaður þess m.a. notaður til að grafa Panamaskurðinn. Fyrirtækið er nú með höfuðstöðvar í Suður-Milwaukee í Wisconsin í Bandaríkjunum.

J.P. Morgan Securities LLC var fjárhagslegur ráðgjafi Caterpillar í þessum viðskiptum en Deutsche Bank Securities Inc. og UBS Investment Bank unnu að málinu fyrir Bucyrus.