CCP mun kosta undbirbúning náms og rannsókna í tölvuleikjagerð við Háskólann í Reykjavík fyrir 10 milljóna króna framlagi. Þá mun fyrirtækið kosta nýja stöðu prófessors við tölvunarfræðideild HR. Er þetta hluti af fimm ára samstarfssamningi milli fyrirtækisins og skólans um að stórefla kennslu og rannsóknir í tölvuleikjagerð.

Í tilkynningu kemur fram að samkvæmt samstarfsamninginum er gert ráð fyrir að stöðunni gegni fræðimaður á sviði tölvuleikjagerðar sem vinni náið með CADIA, gervigreindarsetri innan Háskólans í Reykjavík, sem og íslenskum tölvuleikjaiðnaði. Viðkomandi mun njóta akademísks frelsis í rannsóknum sínum og kennslu.

Tölvuleikjagerð (e. game design) er þverfagleg í eðli sínu og nýtir m.a. þekkingu úr greinum á borð við tölvunarfræði, sálfræði, hagfræði, stærðfræði og viðskipti. Við tölvuleikjagerð er til dæmis litið til mannlegrar hegðunar, notkunar mismunandi viðskiptalíkana og áhrifa leikjaspilunar á börn og fullorðna. Með samningnum skuldbindur háskólinn sig til að styðja við alþjóðlega viðurkennt rannsóknarstarf í leikjahönnun og vekja athygli á fræðasviðinu og þróun tölvuleikjagerðar á Íslandi.

Auk fjárhagslegs stuðnings mun CCP veita námi og rannsóknum við HR stuðning gegnum þá faglegu reynslu sem starfsfólk fyrirtækisins hefur að geyma og alþjóðlegt tengslanet fyrirtækisins.