Stjórn útivistarvörufyrirtækisins Cintamani hefur gefið félagið upp til gjaldþrotaskipta og verður allur lager þess seldur að því er mbl greinir frá.

Íslandsbanki heldur utan um söluferli á lager félagsins sem hann eignaðist við skuldaskil og er frestur til að senda tilboð í síðasta lagi 3. febrúar næstkomandi.

Jafnframt hefur verið tilkynnt um rýmingarsölur vegna lokana verslana fyrirtækisins í Smáralind og á Akureyri, sem og stefnt er að því að tæma verslanirnar á Laugavegi og í Kringlunni.

Tap félagsins árið 2017 nam 126 milljónum króna, en árið 2016 var hagnaður þess 12,8 milljónir króna. Eigið fé árið 2017 var 223 milljónir en stöðugildin voru 37. Ekki hefur verið skilað ársreikningi fyrir 2018.

Viðskiptablaðið sagði frá því fyrir tæpu ári að helstu hluthafar, fjárfestirinn Kristinn Már Gunnarsson og Félagið Frumtak slhf, hefðu lagt því til 300 milljónir króna í aukið hlutafé vegna erfiðs rekstrar. Kristinn Már var meirihlutaeigandi eftir kaup sín á 60% í félaginu árið 2011.