Bandaríska bankasamstæðan Citigroup tapaði um 7,6 milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ársfjórðungi síðasta árs, samanborið við 17,3 milljarða dala tap á sama tíma árið áður.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má helst rekja tapið til endurgreiðslu Citigroup af neyðarlánum þeim er samstæðan fékk í upphafi ársins. Ef endurgreiðslurnar eru teknar frá í rekstrarreikningi samstæðunnar nemur tapið 1,4 milljarði dala.

Tap Citigroup fyrir árið 2009 nemur því 1,6 milljarði dala en að sögn Bloomberg er samstæðan mun viðkvæmari fyrir minnkandi viðskiptabankaþjónustu en aðrir bankar sem reiða meira á fjárfestingabankastarfsemi.

Þrátt fyrir tapið eru stjórnendur samstæðunnar bjartsýnir og Vikram Pandit, forstjóri Citigroup sagði að bankinn hefði ná miklum árangri á síðasta ári. Meðal annars hafi bankinn greitt til baka 20 milljarða dala neyðarlán frá bandaríska ríkinu.