Eins og kom fram fyrr í dag ruku hlutabréfamarkaðir beggja megin Atlantshafsins upp í dag eftir að Vikram Pandit, forstjóri Citigroup sendi starfsmönnum bankans minnisbréf þar sem fram kom að rekstur bankasamstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs yrði líklega sá besti í tvö ár, eða frá byrjun árs 2007.

Við lok markaða í New York hafði Nasdaq vísitalan hækkað um 7,1%, Dow Jones um 5,8% og S&P 500 um 6,4% en S&P 500 hefur ekki hækkað jafn mikið á einum degi síðan í nóvember s.l.

Ummæli Pandit þykja að sögn Bloomberg fréttaveitunnar gefa til kynna að fjármálastofnanir geti nú horft til sólar á ný en sem dæmi má nefna að Citigroup hefur nú alls tapað um 37,5 milljörðum Bandaríkjadala síðustu fimm ársfjórðunga.

Eins og gefur að skilja voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins. Þannig hækkaði Citigroup samstæðan um 38%, JP Morgan um 23%, Bank of America um 28% og Wells Fargo um 18%.

Til gamans má geta að eftir daginn í dag er gengi Citigroup nú 1,45 á hvern hlut en í síðustu viku fór gengi félagsins í fyrsta skipti í sögunni undir 1 dal.

Hráolíuverð lækkaði í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 45,54 dali og hafði þá lækkað um 3,25% frá opnum markaða.