Stærsta fjármálafyrirtæki Bandaríkjanna, Citigroup tilkynnti í morgun um tap upp á 5,1 milljarð Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðung eða um 386,5 milljarða íslenskra króna. Þar af eru afskriftir upp á 6 milljarða dali.

Þá minnkuðu tekjur bankans um 48% á fyrsta ársfjórðung. Á sama tíma í fyrra hagnaðist félagið um 5 milljarða dali.

Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem Citigroup tilkynnir um mikið tap en bankinn hefur þurft að afskrifa um 15 milljarða dali á síðustu misserum eða um 1.100 milljörðum króna.

Vikram Pandit, forstjóri Citigroup segir félagið þó standa á traustum grunni. Framundan sé styrking viðskiptahátta en Reuters fréttastofan greinir frá því að Citigroup hafi nú aukið hlutafé sitt um allt að 30 milljarða Bandaríkjadali.

Hlutabréf í Citygroup hafa lækkað um 18% frá áramótum.