Breska matvörukeðjan Co-operative áformar að fjárfesta fyrir 1,5 milljarð punda til að bæta verslanir fyrirtækisins og stækka markaðshlutdeild Co-operative á matvörumarkaðnum, að því er fram kemur á fréttavef Guardian. Markmiðið er að tvöfalda hagnað félagsins innan næstu þriggja ára.

Hin metnaðarfullu markmið voru kynnt á sama tíma og félagið staðfesti að það ætti í viðræðum um kaup á matvörukeðjunni Somerfield, sem er að hluta til í eigu Kaupþings.

Peter Marks, forstjóri Co-operative, sagði að viðræður við fjárfestingasjóði, sem væru helstu eigendur Somerfield, miðuðu vel áfram. Hins vegar væru þær enn á byrjunarstigi og því langt í land.

Endurskipulagning á öllum rekstri Co-operative ætti að ljúka í árslok. Marks segir að sala hafi aukist um næstum 14% í þeim verslunum sem þegar hafi verið ráðist í slíka uppstokkun. Félagið hefur einkum verið að bæta markaðshlutdeild sína í ferskum matvörum. Fjárfesting Co-operative verður einnig notuð til þess að ráðast í yfirtökur á smærri fyrirtækjum þegar tækifæri gefst til.

Sérfræðingar segja að líklegt kaupverð á Somerfield gæti numið á bilinu 1,6 til 1,7 milljörðum punda. Marks segir að það sé hins vegar “ekki öruggt að kaupin gangi eftir”, en bætir því við að samruni fyrirtækjanna væri skynsamlegur vegna mikilla samlegðaráhrifa.

Með kaupum á Somerfield myndi verslunum Co-operative fjölga um 900 og næstum tvöfalda markaðshlutdeild fyrirtækisins – úr 4% í 8%. Co-operative yrði þar með fimmta stærsta fyrirtækið á breska matvörumarkaðnum.

Auk Kaupþings er Somerfield í eigu fjárfestingasjóðanna Apax og Barclays Capital, og íranska fasteignajöfursins Robert Tchenguiz, sem hefur átt í nánu samstarfi við Kaupþing, jafnframt því að eiga sæti í stjórn Exista.