Spænski drykkjarvöruframleiðandinn Cobega hefur ekki enn greitt fyrir Vífilfell. Tilkynnt var um kaup spænska félagsins þegar Arion banki greindi frá skuldauppgjöri við Þorstein M. Jónsson 20. janúar síðastliðinn. Tvö félög í hans eigu, Sólstafir og Neanu, halda um allt hlutafé í Vífilfelli. Samkomulagið við Arion banka kveður á um að greiðslan frá Cobega komi til lækkunar á skuldum eignarhaldsfélaga Þorsteins.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa forsvarsmenn Cobega unnið að mestu sjálfir að kaupunum hér á landi og fjármögnun þeirra í krónum. Þá hefur BBA/Legal lögfræðistofa staðið nærri ferlinu, samkvæmt heimildum blaðsins.

Viðskiptablaðið leitaði eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands um hvort fjárfesting Cobega sé nýfjárfesting í skilningi reglna um gjaldeyrismál og hvort seðlabankinn hafi fengið tilkynningu um innstreymi erlends gjaldeyris tengt kaupunum. Seðlabankinn bar fyrir sig þagnarskyldu, samkvæmt sömu reglum. Viðskiptablaðið sendi einnig fyrirspurn til Cobega á Spáni þar sem spurt var um með hvaða leiðum félagið hyggst greiða fyrir hlutinn. Svör frá Cobega hafa ekki borist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir tölublöð.