Unnið er að frágangsmálum kaupa spænska drykkjarvöruframleiðandans Cobega á Vífilfelli. Búið er að skrifa undir alla helstu pappíra. Kaupin eru nýfjárfesting í skilningi núverandi reglna um gjaldeyrismál frá árinu 2008. Viðskiptablaðið sendi Cobega fyrirspurn um kaupin á Vífilfelli um miðjan febrúar. Svör hafa ekki borist frá félaginu. Meðal þess sem spurt var um er hvernig greiðslu verður háttað. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er um að ræða innstreymi fjármagns inn í landið. Þá sagði viðmælandi blaðsins að Cobega sé í mun að hafa allt uppi á borðinu.

Reglur um gjaldeyrismál kveða á um að fjárfestir skal, með aðstoð fjármálafyrirtækis hér á landi, tilkynna um nýfjárfestingu til Seðlabanka Íslands innan tveggja vikna frá því að nýju innstreymi erlends gjaldeyris er skipt í innlendan gjaldeyri. Algengt er að viðskipti sem þessi taki á bilinu einn til fjóra mánuði. Tilkynnt var um skuldauppgjör Þorsteins M. Jónssonar, eiganda Vífilfells, við Arion banka 20. janúar sl. Greiðsla frá Cobega kemur að öllu leyti til lækkunar skulda eignarhaldsfélaga hans, samkvæmt uppgjörinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.