Hagnaður drykkjarvöruframleiðandans Coca-Cola jókst um 20% á síðasta ársfjórðungi frá sama tímabili ári fyrr. Nam hagnaðurinn nú 3,11 milljörðum dala, en í fyrra nam hann 2,6 milljörðum.

Uppgjör fyrirtækisins var ofar væntingum markaðsaðila, einkum vegna sterks dollara sem átti að koma illa við fyrirtækið í sölu utan Bandaríkjanna. Tekjurnar lækkuðu á milli ára úr 12,57 milljörðum í 12,16 milljarða, en samdrátturinn hefði að líkindum orðið meiri ef fyrirtækið hefði ekki brugðið á það ráð að hækka verð á bandarískum markaði.

Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hækkaði lítillega eftir birtingu uppgjörsins.