Bandaríski drykkjarframleiðandinn Coca Cola tilkynnti í fyrra að fyrirtækið ætlaði að prófa hið eina sanna kók með náttúrulega sætuefninu stevía, auk sykurs. Í framhaldinu kom Coca Cola Life á markað í Argentínu.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal hyggst Coca Cola nú fara með drykkinn á markað í Bretlandi. Drykkurinn inniheldur 36% minna af hitaeiningum í en venjulegt Coke.

Vekur þetta athygli því forstjóri aðalkeppinautsins Pepsi Cola, Indra Nooyi, hefur sagt að stevía virki ekki vel í kóladrykki.

Þessu eru forsvarsmenn Coca Cola greinilega ósammála. Þegar hefur Coca Cola notað stevíu í Sprite og vítamínbætta drykki sem fyrirtækið framleiðir.

Hvað er stevía?

Jurtin Stevia rebaudina hef­ur verið notuð um ald­ir í Parag­væ. Í Suður-Am­er­íku er jurtin þekkt und­ir nafn­inu sætu­jurt. Frá Suður-Am­er­íku hef­ur hún borist til margra landa í Asíu og er sæta úr Stevíu­jurtinni mikið notuð í Kína og Jap­an.

Stevíu­sæta hef­ur verið notuð i Banda­ríkj­un­um og í Asíu um ára­tuga­skeið og var viður­kennd af Evr­ópu­sam­band­inu árið 2011 sem sætu­auki í mat­væli.

Stevíu­sæta er 100 til 300 sinn­um sæt­ari en syk­ur, er kal­oríu­laus með öllu, hef­ur ekki áhrif á blóðsyk­ur og veld­ur ekki tann­skemmd­um.