Kínverski flugvélaframleiðandinn Commercial Aircraft Corporation of China (Comac) hefur nú lokið frumhönnun C919 flugvélarinnar.

Fram kemur á vef Flightglobal að framundan sé nánari tækniþróun og eftirvinnsla en áætlað er að þeirri vinnu ljúki á næsta ári.

Nú þegar hafa um 100 vélar verið pantaðar en vélin var fyrst kynnt á flugsýningunni í Zhuhai í Kína í nóvember sl. Fyrsta reynsluflug vélarinnar er áætlað árið 2014 en Comac gerir ráð fyrir því að afhenda fyrsta eintakið árið 2016.

C919 er fyrsta alvöru, ef svo má að orði komast, farþegaflugvélin sem er bæði framleidd og hönnuð af Kínverjum eftir að framleiðslu Shanghai Y-10 vélarinnar var hætt á níunda áratug síðustu aldar. Vélinni er ætlað að keppa við Boeing 737 og Airbus 320 línuna.