Innkoma Costco á íslenskan markað mun hafa veruleg og víðtæk áhrif á fjölda íslenskra fyrirtækja, að því er kemur fram í skýrslu sem ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækið Zenter gerði á dögunum. Er þar farið yfir helstu staðreyndir um starfsemi Costco erlendis og umfang áætlaðs verslunarreksturs fyrirtækisins hér á landi og reynt að spá fyrir um áhrif hans á íslenska markaðinn.

Már Wolfgang Mixa, sem vann að skýrslunni með Zenter, segir að áhrif komu Costco verði jafnvelmeiri á innflytjendur og heildsala en á aðrar smásöluverslanir. „Í krafti stærðar sinnar getur Costco boðið upp á ýmsar vörur, þar á meðal þekkt vörumerki, á mun lægra verði en íslenskir neytendur hafa mátt venjast hingað til. Ég sé fyrir mér að margir innflytjendur, sem hafa verið með þekkt umboð í lengri tíma, muni finna fyrir komu verslunarinnar hingað.“

Stefnt er að opnun verslunar Costco í Garðabæ í nóvember 2016 og verður verslunin 14.000 fermetrar að stærð. Costco er stærsti rekstraraðili vöruhúsaklúbba í Bandaríkjunum og er 18. stærsta fyrirtækið á Fortune 500 listanum. Hagnaður fyrirtækisins jókst um 15,5% í fyrra frá árinu á undan og á árunum 2004-2014 óx Costco hraðast af tíu stærstu fyrirtækjum heims.

Heimsóttu Costco

Segir í skýrslunni að þetta gefi Costco gríðarlegt vald í samskiptum fyrirtækisins við birgja og geti það því náð innkaupaverði, sem aðrir smásalar geti illa keypt við. Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri Zenter, segir fyrirtækið hafa ráðist í þessa skýrslugerð vegna þess að mikils áhuga hafi orðið vart á hugsanlegum áhrifum Costco á íslenska markaðinn. „Það eru margir sem velta því fyrir sér hvaða áhrif innkoma Costco mun hafa á markaðinn, bæði á smásöluna sem og aðra geira. Við vildum einfaldlega svara þessum spurningum að því marki sem það er hægt.“

Trausti segir að við vinnslu skýrslunnar hafi starfsmenn Zenter heimsótt verslanir Costco og komist að því að nálgun fyrirtækisins á rekstur sé að mörgu frábrugðin því sem gerist og gengur hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf.-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.