Verð á Brent hráolíu hefur lækkað um tæp 6% í dag og er verð á tunnu 77,38 dollarar, en tunnan hefur ekki verið lægri í 2 mánuði. WTI hráolían hefur auk þess lækkað um 6,6% í 73,21 dollara á tunnu. Heimsolíuverð hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi síðan í júlí, samkvæmt Wall Street Journal.

Sérfræðingar hafa áhyggjur af því að nýtt afbrigði COVID-19, upprunnið í Suður-Afríku, muni valda því að fólk ferðist minna og að eftirspurn eftir eldsneyti dragist saman, sem skýrir lækkun olíuverðs.

Viðskiptablaðið greindi nýlega frá áformum Bandaríkjastjórnar að losa 50 milljón olíutunna úr varaforða ríkisins á markað til að ná stjórn á síhækkandi olíuverði. Slíkar aðgerðir auka framboð á olíu og ýta undir olíuverðslækkanir.