Creditinfo Group hefur undirritað samning um kaup á upplýsingafyrirtækinu Experian Marocco. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Seljandinn er Experian plc, sem samkvæmt tilkynningunni er það eitt stærsta fyrirtæki í heimi á sviði fjármálaupplýsinga. Experian Marocco er staðsett í Casablanca í Marokkó og er heildarfjárfestingin um 500 milljónir króna.

„Meðal helstu markmiða Creditinfo Group eru að auka umsvif okkar í Afríku. Þess vegna er það sérstakt ánægjuefni fyrir félagið að eignast starfsemi í Marokkó. Bæði vegna þess markaðar og vegna þess að þaðan er gott að þjónusta Vestur-Afríku. Við erum þegar með skrifstofur í fjórum löndum á því svæði,“ segir Kristinn Agnarsson, framkvæmdastjóri nýrra markaða hjá Creditinfo Group. Þá segir Kristinn veltu Experian Marocco vera um 300 milljónir króna, en stefnt sé að því að auka hana hratt með því að innleiða kerfi Creditinfo og nýjar vörur og þjónustur.

Reynir Grétarsson, forstjóri og stærsti hluthafi í Creditinfo Group, segir þetta passa vel við stefnu fyrirtækisins til lengri tíma: „Þetta er akkúrat sá markaður sem við viljum vera á og hentar okkar starfsemi. Við viljum sérhæfa okkur og helst þannig að keppinautarnir vilji ekki vera á sama stað og við. Við stefnum enn á að vera í 50 löndum árið 2020 og erum á áætlun,“ segir Reynir.