Dóttufélag netöryggisfyrirtækisins Cyren á Íslandi hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag.

Þá er móðurfélagið í Ísrael komið í greiðslustöðvun. Cyren hannaði meðal annars vírusvarnir sem stór fyrirtæki á borð við Microsoft, Google, Intel og T-Mobile hafa notast við.

Félagið hefur gefið út viljayfirlýsingu um að selja eignir félagsins til íslenska upplýsingatæknifyrirtækisins OK, sem hét áður Opin kerfi. Meðal eigna eru öll þau hugverk og tæknilausnir Cyren sem meðal annars nýtast sem varnir gegn vírusum og netárásum.

Félagið tilkynnti fyrir um mánuði síðan að það hugðist segja upp nær öllum starfsmönnum félagsins. Þá hafði um þrjátíu starfsmönnum dótturfélags Cyren á Íslandi verið sagt upp.

Hallgrímur Thorberg Björnsson, yfirmaður Cyren á Íslandi, staðfesti þetta á sínum tíma í samtali við Vísi.

„Þetta kemur öllum gífurlega á óvart. Þetta er ákvörðun sem var tekin af yfirstjórn fyrirtækisins í Bandaríkjunum og flestir fá uppsagnarbréf í gær. Þetta eru gríðarleg vonbrigði sérstaklega þar sem reksturinn sem við berum ábyrgð á hér á Íslandi gekk afar vel,“ sagði Hallgrímur.