*

fimmtudagur, 12. desember 2019
Innlent 21. nóvember 2019 13:46

Dæmdur fyrir árás á öryggisvörð

Karlmaður á sjötugsaldri fékk tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að ráðast á öryggisvörð Landsbankans.

Ritstjórn
Manninum var meðal annars gefið að sök að hafa kastað öryggisverðinum niður tröppur fyrir utan anddyri bankans.
Haraldur Guðjónsson

Karlmaður á sjötugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að ráðast á öryggisvörð Landsbankans í Austurstræti í september 2017.

Manninum var gefið að sök að hafa veist að öryggisverðinum með ofbeldi, komið aftan að honum, tekið hann kverkataki að aftan og þrengt að hálsi hans og öndunarvegi á meðan hann dró hann út úr anddyri Landsbankans. Þegar á stigapallinn fyrir utan kom var honum gefið að sök að hafa kastað öryggisverðinum svo hann féll niður stigann við innganginum. Þar átti hann að hafa sparkað í hann. Hlaut öryggisvörðurinn mar og blæðingar á hálsi, eymsli yfir barka, tognunareinkenni í hálsi og skrámur á hnjám.

Fjallað var um málið í DV nokkrum dögum eftir að það kom upp og þar rætt við manninn. Árið 2016 höfðu þrír stjórnendur Landsbankans kært hann til lögreglu fyrir hótanir og rofs á friðhelgi einkalífs. Í þeim hópi var Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri, en hann yfirgaf heimili sitt um tíma vegna þessa.

Var að endurheimta símann sinn

Í málinu lágu fyrir þrjár upptökur en sú fyrsta stafaði frá hinum sakfellda. Hann hafði komið inn í bankann í fylgd föður síns og tekið heimsóknina upp. Vildu þeir fá fund með bankastjóra og yfirlögfræðingi bankans. Þegar inn var komið benti öryggisvörðurinn þeim á að myndatökur væru ekki heimilaðar í bankanum og bað þá um að láta af háttsemi sinni. Þegar því var ekki sinnt greip hann síma af föður dómþola með fyrrgreindum afleiðingum. Einnig lágu fyrir upptökur úr öryggismyndavélum sem sýndu atburðarrásina.

Hinn dæmdi krafðist sýknu. Umrætt símtæki hefði verið verðmætt en það hefði geymt ýmis gögn um samskipti hans við bankann í gegnum tíðina. Mikilvægt hefði verið að öryggisvörðurinn tæki ekki upp á því að eyða gögnunum. Því hefði hann reynt að endurheimta lögvarða eign sína. Honum væri eðlislægt að verja sig en hann sæktist ekki í að stofna til átaka eða vera í áflogum.

Öryggisvörðurinn bar því við fyrir dómi að skýrar reglur væru um myndatökur í bankanum og að þær væru bannaðar án leyfis. Hann hefði biðlað til þeirra að hætta að taka upp enda kærði hann sig ekki um að myndband af honum myndi enda í dreifingu á samfélagsmiðlum. Að mati dómsins fór öryggisvörðurinn eigi nægilega gætilega er hann tók umrætt símtæki af manninum.

Sýknaður af stórum hluta ákæru

Ákærði í málinu byggði sýknukröfu sína meðal annars á því að verknaðarlýsing ákæru væri ekki rétt. Honum hefði verið gert að sök að hafa tekið öryggisvörðinn „kverkataki“ en hið rétta væri að hann hefði tekið hann „hálstaki“. Dómari málsins taldi að ekki væri unnt að gera skýran greinarmun þar á og var maðurinn sakfelldur fyrir það.

Þá kannaðist hann ekki við að hafa „þrengt að öndunarvegi“ öryggisvarðarins. Takið hefði aðeins varað í örfáar sekúndur áður en því var létt. Samkvæmt matsgerð réttarmeinafræðings var alveg ljóst að þrengt hefði verið að æðum í hálsi en slíkt geti leitt til blóðflæðistruflunar. Hins vegar þurfi meira afl til að þrengja að öndunarveginum. Dómari málsins féllst á það og sýknaði manninn af því að hafa þrengt að öndunarvegi öryggisvarðarins.

Að endingu þá studdi hvorki framburður öryggisvarðarins né upptökur úr öryggismyndavélum þann hluta ákærunnar að öryggisverðinum hefði verið kastað niður tröppurnar eða að hann hefði hlotið spark. Var maðurinn því sýknaður af því sem og að hafa valdið því að skrámur mynduðust á hnjám.

Maðurinn krafðist einnig sýknu á grundvelli neyðarvarnar- og neyðarréttarsjónarmiða. Hvað hið fyrrnefnda varðar þá féllst dómurinn ekki á það. Mögulegt hefði verið að reyna vægari úrræði til þess að fá símann til baka. Fyrir dómi bar maðurinn því við að hann hefði verið yfirvegaður þegar hann greip til hálstaksins. Því var ekki fallist á refsileysi sökum geðshræringar. Að endingu var ekki fallist á það að hagsmunirnir sem undir voru væru slíkir að það réttlætti að grípa þið téðra aðgerða.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að hagsmunirnir sem brotið var gegn teljast mikilvægir og tjónsins sem þeir orsökuðu. Það horfði til refsilækkunar hvað manninum gekk til með því. Með hliðsjón af hinum mikla drætti sem varð á málinu – tæpir átta mánuðir liðu frá brotinu og þar til rannsókn hófst – var refsingin bundin skilorði til tveggja ára. Þá var maðurinn dæmdur til að greiða brotaþola 500 þúsund krónur í miskabætur og til að greiða 800 þúsund krónur í málskostnað vegna bótakröfunnar. Að endingu var hann dæmdur til að greiða tæpar 807 þúsund krónur vegna málsvarnarlauna verjanda og annars sakarkostnaðar.