Dagmar Lóa Hilmarsdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri AGR Dynamics og mun stýra markaðssviði fyrirtækisins. Hlutverk Dagmarar verður að byggja upp markaðsteymið, en staðan er ný innan fyrirtækisins.

Dagmar hefur mikla reynslu af markaðssetningu af hugbúnaðarlausnum til erlendra stórfyrirtækja en áður starfaði hún sem markaðsstjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Men&Mice í 15 ár. Einnig hefur hún reynslu af verkefnastjórnun og innleiðingu stafrænna lausna.

Dagmar Lóa er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík,  B.Sc. gráðu í viðskiptafræði af alþjóðamarkaðssviði frá Tækniháskóla Íslands og diplóma í alþjóðamarkaðsfræðum frá Niels Brock Business College í Danmörku.

„Þetta er gríðarlega spennandi tækifæri að ganga til liðs við AGR Dynamics og byggja þar upp á góðum grunni markaðshlutdeild og virði AGR á erlendum mörkuðum,“ segir Dagmar. „Hér er verið að þróa lausnir byggðar á íslensku hugviti, tækni sem hjálpar m.a. við að minnka sóun í aðfangakeðjunni og að fara betur með heimsins gæði, og að fá að taka þátt í því er virkilega gefandi.“

AGR Dynamics er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar lausnir til hagræðingar í rekstri aðfangakeðjunnar.  AGR býður upp á innkaupa og birgðastýringalausnir, lausnir sem gera fyrirtækjum kleift að lágmarka bundið fé í birgðum, auk þess að bæta verkferla við vörustýringu.

„Það er mjög mikilvægt fyrir AGR að fá aðila eins og Dagmar með alla sína reynslu til félagsins. Hún mun bera ábyrgð á markaðssetningu og vörumerkjum AGR til að gera okkur kleift að sækja inná nýja markaði og styðja við vöxt félagsins á núverandi mörkuðum,“ segir Haukur Hannesson framkvæmdastjóri AGR Dynamics.