Stjórnendur Dagsbrúnar hafa boðað til kynningarfundar með fjárfestum og fjölmiðlum í Salnum í Kópavogi klukkan 11 í dag.

Tilefni fundarins er ekki gefið upp en leiða má líkur að því að það tengist fréttum undanfarinna daga um skiptingu félagsins.

Fréttir af meintri uppskiptingu félagsins hafa verið mjög misvísandi. Þannig sagðist Fréttablaðið hafa heimildir um slíkt í frétt sinni á laugardaginn en í Morgunblaðinu sama dag var haft eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Dagsbrúnar, að hann kannaðist ekki við að verið væri að skipta Dagsbrún í tvennt.

Einnig hafa verið getgátur um að mögulegt sé að selja einingar út úr samstæðunni.