Samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknarseturs verslunarinnar jókst árstíðaleiðrétt dagvöruvelta í júní um 1,3% frá mánuðinum á undan, segir greiningardeild Kaupþings banka og útskýrir: ?Árstíðaleiðrétta vísitalan er leiðrétt fyrir árstíðarsveiflum og fjölda viðskiptadaga ásamt áhrifum hlaupárs. Velta í dagvöruverslunum er samkvæmt þessum tölum enn að aukast."

Tólf mánaða meðaltal

Þrátt fyrir að dagvöruvelta hafi aukist fer vöxturinn minnkandi miðað við tólf mánaða meðaltal.

?Tólf mánaða vöxtur smásölu náði hámarki í 15,4% í júní 2005 en mælist nú 2,4%. Að því ber þó að gæta að í júní í fyrra var smásöluvelta með mesta móti sem gæti skýrst af verðstríðinu sem ríkti á matvörumarkaði um það leyti. Í því ljósi gæti 2,4% hækkun frá þeim tímapunkti talist töluverð. Við þetta má bæta að allra síðustu mánuði hefur aukning í dagvöruveltu verið töluverð," segir greiningardeildin.

Síðustu þrír mánuðir

Dagvöruvelta hefur aukist um 3,8% á síðustu þremur mánuðum, þrátt fyrir það telur greiningardeildin að einkaneysla muni fara minnkandi á næstu ársfjórðungum.

?Vísbendingar þess efnis má m.a. finna í aukinni svartsýni neytenda, sem lesa má úr mikilli lækkun væntingavísitölu Gallups að undanförnu. Auk þess virðist sem vöxtur í bílainnflutningi sé að stöðvast eða dragast saman en oft er litið á bílainnflutning sem leiðandi vísbendingu um þróun einkaneyslu," segir greiningardeildin.