Dale Carnegie á ekki rétt á lokunarstyrk úr hendi stjórnvalda þrátt fyrir að hafa skellt í lás meðan faraldurinn stóð sem hæst í vor. Þetta fellst í niðurstöðu yfirskattanefndar sem staðfesti með því niðurstöðu Skattsins.

Sem kunnugt er stendur Dale Carnegie fyrir ýmis konar námskeiðum sem miða að því að auka sjálfstraust, öryggi og samskiptahæfni þeirra sem það sækja. Vanalega er það nokkur hópur sem kemur saman og tekur þátt í námskeiðinu hverju sinni. Sökum þess vara námskeiðum frestað meðan samkomutakmarkanir voru sem mestar í vor enda hafi nokkur nálægð verið milli fólks og hætta á snertingu.

Undir rekstri málsins fyrir nefndinni var heilbrigðisráðuneytinu gefinn kostur á að koma umsögn að. Í henni sagði að samkvæmt umþrættri auglýsingu hefði verið lokað á starfsemi sem krefðist snertingar eða mikillar nálægðar. Þar undir féllu til að mynda sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, íþróttastarf og hárgreiðslustofur og „önnur sambærileg starfsemi“. Fjölmargir aðilar hefðu skert starfsemi sína án þess að ráðuneytið teldi hana falla undir téð ákvæði.

„Þar sem umrædd ákvæði auglýsingarinnar hafi falið í sér skerðingu á atvinnufrelsi hafi þau verið ekki verið túlkuð rýmra en leiði af orðalagi þeirra og önnur starfsemi en sú, sem talin sé upp, ekki verið talin falla undir nema að teljast að öllu leyti sambærileg. Að mati ráðuneytisins verði ekki talið að starfsemi kæranda sé þannig í eðli sínu að hún krefjist snertingar eða feli í sér hættu á snertingu milli fólks þannig að hún falli undir þá starfsemi sem við sé átt í [auglýsingunni] eða sé öldungis sambærileg við slíka starfsemi,“ sagði í umsögn ráðuneytisins. Hefði Dale Carnegie sent ráðuneytinu fyrirspurn hefði það verið mat þess að þau hefðu ekki þurft að láta af námskeiðahaldi.

Hefðu getað dregið seglin lítillega saman

Í umsögn Dale Carnegie kom fram að ákveðið hefði verið að loka sökum tilmæla sóttvarnalæknis. Þegar ákvörðun um stöðvun starfsemi var tekin hafi þau talið víst að starfsemin væri ekki leyfð samkvæmt auglýsingunni. Lög um lokunarstyrki hafi ekki verið í gildi á þeim tíma og hvergi hafi komið fram að fyrirtækjum stæði til boða að leita afstöðu ráðuneytis um það hvort þeim bæri að loka eður ei. Ekki gengi að láta lögin gilda félaginu í óhag með afturvirkum hætti og vafa bæri að skýra því í hag.

„Sú starfsemi, sem sérstaklega er tilgreind í [auglýsingunni], þ.e. íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa og nuddstofa, er þess eðlis að henni verður trauðla sinnt án snertingar og/eða mikillar nálægðar einstaklinga, svo sem við á um ýmsa heilbrigðisþjónustu sem sérstaklega er undanþegin gildissviði auglýsingarinnar í 7. gr. hennar. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um starfsemi kæranda, sem eins og fram er komið er fólgin í námskeiðahaldi, verður ekki talið að hún verði að þessu leyti lögð að jöfnu við þá starfsemi sem talin er í ákvæðinu,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Taldi nefndin að námskeiðahaldið félli betur að þriðju og fjórðu grein auglýsingarinnar en samkvæmt þeim gilti tuttugu manna hámark og tveggja metra regla á ráðstefnum, málþingum, fundum og öðrum sambærilegum viðburðum. Dale Carnegie hefði því verið unnt að sníða sér stakk eftir því, fækka á námskeiðum sínum og tryggja að nægilega langt bil væri á milli þáttakenda. Þá tækju lög um lokunarstyrki skýrlega til starfsemi sem hefði verið gerð óheimil á tilteknu tímabili en ekki til fyrirtækja sem sættu almennum samkomutakmörkunum. Kröfu fyrirtækisins um lokunarstyrk var því hafnað.