*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 30. ágúst 2017 09:16

Dalurinn eignast 88,38% í Pressunni

Eignarhaldsfélagið Dalurinn, þar sem Róbert Wessman er í hópi hluthafa, eignaðist í síðustu viku 88,38% í fjölmiðlafyrirtækinu Pressunni, sem er móðurfélag Vefpressunar, DV og Eyjunnar.

Ritstjórn
Róbert Wessman er meðal hluthafa í Dalnum sem hefur nú eignast 88,38% eignarhlut í Pressunni.
Haraldur Guðjónsson

Eignarhaldsfélagið Dalurinn eignaðist í síðustu viku 88,38% hlut í fjölmiðlafyrirtækinu Pressunni, sem er móðurfélag Vefpressunar, DV og Eyjunnar. Félög í eigu Björns Inga Hrafnssonar, útgefenda Pressunar, og Arnars Ægissonar, framkvæmdastjóra félagsins, eiga því um 11% hlut í félaginu að því er kemur fram í frétt Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um málið. 

Eigendur Dalsins eru: Árni Harðarson, Halldór Kristmannsson, Hilmar Þór Kristinsson, Jóhann G. Jóhannsson og Róbert Wessmann, en hver á um 20% hlut í félaginu. Fyrr í sumar keypti eignarhaldsfélagið allt hlutafé í Birtíngi, sem gefur meðal annars út Gestgjafann, Hús og híbýli og Vikuna. 

Hlutafjáraukningin gekk ekki eftir

Fyrr á þessu ári var greint frá því að að sex fjárfestahópar, þar á meðal Dalurinn, myndu taka þátt í hlutafjáraukningu Pressunar, þar sem að hlutafé félagsins átti að vera aukið um 300 milljónir króna. Það gekk þó ekki eftir. 

Í samtali við Markaðinn sagði Halldór Kristmannsson, einn af forsvarsmönnum Dalsins, að félagið hafi lagt Vefpressunni til talsverða fjármuni í tengslum við fyrirhugaða hlutafjárhækkun í vor, þó að hún hafi ekki gengið og aðrir hluthafar hafi dregið sig úr. 

Halldór bætti við að staða Vefpressunnar og dótturfélaga væri þung og að stjórnendur hafi óskað eftir svigrúmi í sumar til að leita nýrra hluthafa til að bjarga rekstrinum, en það hefur ekki gengið eftir. Dalurinn er því nú langsamlega stærsti eigandi Pressunnar með 88,38% hlut. Næst stærsti hluthafinn er félagið Kringlueignir ehf., sem er í eigu Björns Inga, með 5,28% hlut og AB11 ehf. í jafnri eigu Björns inga og Arnars Ægissonar, með 4,18% hlut.

Í fréttinni er einnig sagt að samkvæmt þeirra heimildum hafa skuldir Vefpressunnar og DV aukist undanfarna mánuði og nema heildarskuldir félagsins ríflega 700 milljónum króna. Nema þar á meðal vanskil við tollstjóra vegna opinberra gjalda og ógreidd gjöld í lífeyrissjóði og stéttarfélög 400 milljónum króna að því er kemur fram í frétt Markaðarins. Einnig er sagt frá því að tollstjóri hafi lagt fram gjaldþrotabeiðni á hendur Vefpressunni sem verði tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í næsta mánuði. 

Stikkorð: Pressan hluthafar Dalurinn eigendur eignast