DANICE, nýr sæstrengur sem tengir saman Ísland og Evrópu, var tekin formlega í notkun aðfaranótt mánudags. Guðmundur Gunnarsson framkvæmdastjóri FARICE segir megin kostinn vera aukið öryggi til að geta þjónað vel gagnaverum sem verið er að koma á fót hérlendis.

„Nú erum við komnir með tvær jafngildar leiðir til Evrópu. Áður vorum við með Farice-strenginn og Canatat sem er mun afkastaminni og gat ekki annað allri gagnaumferð ef Farice bilaði."

Danice-sæstrengurinn liggur frá Landeyjarsandi  til Blåberg í Jótlandi í Danmörku. Það var bandaríska fyrirtækið Tyco Telecommunications sem sá að mestu um lagningu sæstrengsins sem hófst í ágúst 2008. Strengurinn er í eigu Eignarhaldsfélagsins Farice ehf. og eru hluthafar félagsins Landsvirkjun, íslenska ríkið, Orkuveita Reykjavíkur, Skipti, Og fjarskipti (Vodafone) og HS Orka.