Danskir fjárfestar hafa verið í óðaönn að losa sig við erlend hlutabréf seinustu mánuði og eiga nú 18% minna af slíkum bréfum en þeir áttu um áramót, að því er fram kemur í nýjum upplýsingum frá danska seðlabankanum. Í nýliðnum júnímánuði seldu þeir erlend hlutabréf fyrir alls 23 milljarða danskra króna, eða um 398 milljarða íslenskra króna.

„Minnkandi erlend hlutabréfaeign skýrist ekki aðeins af virkri sölu heldur einnig almennri niðursveiflu markaða það sem af er árinu. Júnísalan er einkum knúin af lífeyris- og tryggingafélögum, auk fjárfestingafyrirtækja,” segir í greiningu danska seðlabankans.

Danirnir losa sig fyrst og fremst við hlutabréf fyrirtækja, bæði evrópskra og bandarískra. Það er einnig ljóst hvar þeir vilja fjárfesta þessa dagana því að þeir hafa keypt erlend skuldabréf fyrir 33 milljarða danskra króna, eða sem svarar til 571 milljarði íslenskra.

Útlendingar eiga þriðjung danskra fyrirtækja

Það er athyglisvert að á sama tíma og danskir fjárfestar flýja frá erlendum fyrirtækjum hefur eign erlendra fyrirtækja í dönskum skráðum hlutabréfum aldrei verið meiri, að því er fram kom í Børsen á föstudag. Eignarhald þeirra í þeim 200 félögum sem skráð eru í dönsku kauphöllina nemur um 32,5%, sem jafngildir því að útlendingar eigi þriðja hvert skráð félag í Danmörku. Fyrir tveimur árum síðan var þetta hlutfall 23% og nemur aukningin í krónum talið 500 milljörðum danskra króna, eða sem svarar til 8650 milljörðum íslenskra króna. Haldi þessi þróun áfram er sýnt að útlendingar muni eiga helminginn af öllum skráðum hlutabréfum í Danmörku innan fjögurra ára.