Danir öfundast út í frændur sína Norðmenn þessa dagana eftir að hin árlega World Wealth-skýrsla frá Capgemini leiddi í ljós að nær tvöfalt fleiri milljónamæringar, í dollurum talið, eiga heina í Noregi en Danmörku.

Til að komast í þennan hóp þurfa menn að eiga yfir 1 milljón dollara, þ.e. 81 milljón króna eða yfir.

Ekki síst eru Danir skúffaðir vegna þess að íbúar Danmerkur eru talsvert fleiri en í Noregi, um 4,7 milljónir í síðarnefnda landinu og um 5,5 milljónir í Danaveldi, sem gerir hlutfallið enn óhagstæðara Dönum.

62 þúsund norskir milljónamæringar

Að því er fram kemur á norska fréttavefnum e24.no segir í skýrslunni að alls töldust 36 þúsund Danir vera milljónamæringar í dollurum talið árið 2007, sem er 4,7% aukning á milli ára, en norsku millarnir voru hins vegar 62 þúsund talsins, sem er tæplega 13% aukning á milli ára.

Norskir auðkýfingar eiga auð sinn einkum að þakka olíugróða en hin mikla fjölgun í hópi þeirra á seinasta ári var þó einkum rakin til hækkana á hlutabréfa- og fasteignamarkaði.

Gera má því ráð fyrir að einhverjir heltist úr gulllestinni í núverandi hallæri á þeim mörkuðum.