Ekki eru allir sammála um að breyta íslenska húsnæðiskerfinu í átt til þess danska, eins og fjallað var um í Viðskiptablaðinu í síðustu viku í kjölfar fundar Dansk- íslenska viðskiptaráðsins. Á fundinum lýstu sérfræðingar skoðun sinni á málinu og kom meðal annars fram að innleiðing danska kerfisins myndi hafa í för með sér kostnaðarauka í íslenska húsnæðiskerfinu. Gagnlegt getur verið að líta á danska kerfið í hnotskurn til að átta sig á muninum á því danska og því íslenska.

Stóri munurinn er e.t.v. sá að íbúðalánin á Íslandi eru að mestu inni í bönkunum en í Danmörku eru þau í sérstökum íbúðabönkum. Þegar dönsk fjölskylda ákveður að kaupa íbúð tekur hún að jafnaði íbúðalán hjá dönskum íbúðabanka. Þegar lánið er tekið gefur bankinn út sérstakt íbúðabréf sem fjárfestar á frjálsum markaði geta síðan keypt.

Íbúðabankinn fjármagnar lánið ekki með innlánum annarra viðskiptavina og fyrir vikið ríkir jafnvægi á milli íbúðalána og íbúðabréfanna. Íbúðabankarnir stunda ekki aðra starfsemi og að baki hverju íbúðabréfi er veð í viðkomandi íbúðarhúsnæði. Sömuleiðis greiða þeir lægri skatta en önnur fjármálafyrirtæki og starfa án ríkisábyrgðar.

Fyrirkomulagið í Danmörku er einfalt og fyrirsjáanlegt og hefur því tryggt stöðugleika um langt skeið. Hins vegar hefur það í seinni tíð leitt til mjög mikillar skuldsetningar svo húsnæðiskostnaður danskra heimila er einn sá hæsti í heiminum og þau eru viðkvæm fyrir vaxtabreytingum.