Hrun olíuverðs hefur komið illa niður á Sádí-Arabíu eins og mörgum öðrum olíuríkjum. Sádí-arabíska ríkið fékk lánaða 4 milljarða evra í júlí og er það í fyrsta sinn síðan 2007 sem ríkið tekur lán. Ríkið hefur notað næstum því tíu prósent af gjaldeyrisforða sínum það sem af er ári, eða 62 milljarða dollara. Því er spáð að fjárlagahalli landsins verði 20% á þessu ári.

Helmingur landsframleiðslu Sádí-Arabíu og 80% af tekjum ríkisins eru vegna olíuvinnslu. Heimsmarkaðsverð á olíu stendur nú í um 45 dollurum á tunnuna en var í um 100 dollurum á tunnuna fyrir ári síðan. Greiningaraðilar spá því að verðið muni haldast í kringum 50 dollara á tunnuna næsta árið.

Verðhrunið er að hluta til sádí-arabískum stjórnvöldum sjálfum að kenna, að því er segir í frétt CNN Money . Þau hafa krafist þess að hlutdeild OPEC-ríkjanna í olíumarkaðnum haldist óbreytt og þannig stóraukið framboðið af olíu á heimsmarkaði á sama tíma og hægt hefur á vexti eftirspurnar.

Sádí-Arabía hefur á sama tíma ráðist í stríð í nágrannalandinu Jemen og stendur nú í loftárásum gegn ISIS í Sýrlandi. Hernaðarútgjöld ríkisins jukust um 17% á síðasta ári og nema nú tíund af landsframleiðslu.