*

laugardagur, 25. janúar 2020
Innlent 6. júlí 2019 11:04

Dauðarokkið hæfir verkefninu

Mikil hagræðingarvinna er framundan hjá Íslandspósti til að bjarga fyrirtækinu.

Jóhann Óli Eiðsson
Birgir Jónsson er nýr forstjóri Íslandspósts.
Eva Björk Ægisdóttir

„Það má segja að tónlistin hæfi verkefninu,“ segir Birgir Jónsson, nýr forstjóri Íslandspósts ohf. (ÍSP), og hlær er hann tekur á móti blaðamanni í skrifstofu sinni og í bakgrunni óma tónar sænsku dauðarokksveitarinnar Entombed.

Birgir tók til starfa sem forstjóri Póstsins í upphafi síðasta mánaðar en fyrirtækið hefur undanfarna mánuði rambað á barmi gjaldþrots. Mikið verk er framundan við að snúa rekstrinum við en forstjórinn nýi er ýmsu vanur þegar kemur að slíku. Oftar en ekki hefur hann verið ráðinn til fyrirtækja sem eru í slæmri stöðu og fengið það hlutverk að taka til.

„Ef maður fer í fræðin þá er oft talað um að bíða og stúdera í níutíu daga áður en gripið er til aðgerða. Það sem blasir við hér er að það er allt strand og fyrirtækið er ekki langt frá því að vera gjaldþrota. Það er enginn tími til staðar hérna,“ segir Birgir en í liðinni viku var tilkynnt um skipulagsbreytingar hjá Póstinum. Fækkað var um tvö í framkvæmdastjórn, sú taldi sex að forstjóra meðtöldum, og flutt verður úr höfuðstöðvunum að Stórhöfða í minna og opnara húsnæði. Þá er unnið að því að selja ýmis dótturfyrirtæki á borð við prentsmiðjuna Samskipti.

„Ég er ekki endurskoðandi eða talnanörd. Ég byrjaði ekki á að setjast niður með fjármálastjóranum og hef varla opnað excelskjal síðan ég kom hingað. Ég hélt fyrst að ég væri á leið inn í rykfallna stofnun og yfirbragðið var þannig fyrst,“ segir Birgir og bendir á „framkvæmdastjórnarganginn“ fyrir utan skrifstofuna. „Þegar ég fór að ræða við fólk kom í ljós að hér er haugur af flottu fólki, hugmyndum og mikill metnaður til að gera hlutina. Mér leið betur við það að sjá að fólk er til í slaginn. En það er jafnframt blóðugt að koma inn í fyrirtæki, sjá að það er búið að fjárfesta í rétta fólkinu en félagið er fast og spólandi í sama farinu,“ segir Birgir.

Stafrænar lausnir lykillinn

Undanfarin ár hefur Íslandspóstur glímt við lausafjárþurrð og reksturinn verið keyrður áfram að stórum hluta á yfirdráttarlánum. Skýringarnar sem gefnar hafa verið á vandanum, af hálfu fyrirtækisins, er gífurlegur samdráttur í bréfum og sprenging í óarðbærum sendingum erlendis frá. Þrátt fyrir það hefur verið fjárfest umtalsvert í pósthúsum og yfirbyggingu undanfarin ár.

„Lykillinn að allri hagræðingu hér felst í stafrænum lausnum. Þegar neytandinn er að senda eða fá sent á hann að geta stýrt okkur hvort hann vill fá heimsent eða sækja, afgreiða tollaskjöl og svo framvegis,“ segir forstjórinn. Slíkt er sambærilegt leiðum sem farnar voru í Færeyjum og Lettlandi þegar þarlend póstfyrirtæki stefndu í þrot. Séu Færeyjar teknar sem dæmi þá var stærstur hluti þjónustunnar færður í smáforrit og öllum pósthúsum, að einu undanskildu, lokað og þess í stað gerðir þjónustusamningar við bensínstöðvar og verslanir um afhendingu. „Um leið og stafrænu ferlarnir eru komnir í gang þá er hægt að skoða aðra hagræðingu í hinu hefðbundna dreifikerfi,“ segir Birgir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Íslandspóstur