Nú er tæpt ár frá því Lehman Brothers féll en þrátt fyrir það hafa hlutabréf í bankanum hækkað mikið að undanförnu í töluverðum viðskiptum. Svipaða sögu er að segja um fleiri fallna banka, til að mynda Washington Mutual og IndyMac, að því er segir í frétt FT.

Hlutabréf í Lehman Brothers fóru í 32 cent í gær eftir að hafa lengst af árinu verið á innan við 5 cent. Þegar áhuginn á þessum gjaldþrota banka tók að aukast seint í ágúst fór veltan með bréfin yfir 100 milljónir hluta á dag, en hafði nánast ekki verið nein framan af ári. Viðskiptin fara fram utan kauphallar, þar sem bankinn hefur verið afskráður.

Bréfin einskis virði

Hlutabréf í gjaldþrota fyrirtækjum eru almennt einskis virði því að hluthafar eru fyrir aftan eigendur skulda í kröfuröðinni. Í frétt FT er haft eftir sjóðsstjóra vogunarsjóðs á Cayman eyjum að fólk hafi tapað svo miklu í fyrra að í örvæntingu sinni geri það hvað sem er til að vinna tapið til baka. Það vilji allir lottómiða. Hann Líkir þessu við túlípanaæði, sem er þekkt bólumyndun úr fjármálasögunni, og segir fólk hafa komist að þeirri niðurstöðu að bréfin séu einhvers virði. Það byggi þó ekki á staðreyndum því að bréfin séu einskis virði.