Davíð Oddsson, formaður stjórnar Seðlabankans, segist aldrei hafa hlaupist frá neinu verki sem hann hafi tekið að sér og muni ekki heldur gera það nú. Þetta kemur fram í svarbréfi Davíðs til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, sem fór þess bréflega á leit við bankastjóra Seðlabankans í liðinni viku að þeir segðu af sér. Ingimundur Friðriksson hefur fallist á að segja af sér, en Eiríkur Guðnason og nú Davíð Oddsson fallast ekki á afsögn.

Gagnrýnir málsmeðferð

Í bréfi sínu gagnrýnir Davíð Oddsson mjög málsmeðferð forsætisráðherra, m.a. hvernig að bréfasendingu til bankastjórnarinnar var staðið og að frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabanka sé illa undirbúið. Hann segir að bréf af því tagi sem forsætisráðherra sendi bankastjórninni, með lítt dulbúnum hótunum til embættismanna sé einsdæmi, ekki eingöngu hér á landi, heldur einnig um allan hinn vestræna heim. „Lög sem eiga að tryggja sjálfstæði seðlabanka og forða pólitískri aðför að seðlabankastjórninni hafa nú verið þverbrotin. Ábyrgð ráðherrans er því mikil,“ segir í svarbréfi Davíðs.

Engar frambærilegar skýringar

Í bréfinu segir Davíð að engar frambærilegar skýringar hafi verið gefnar á því hvers vegna bráðabirgðastjórn, sem þess utan sé minnihlutastjórn, hafi gengið til verks eins og gert hafi verði. „Engar frambærilegar skýringar hafa verið gefnar á því. Þá sitja eftir hinar óframbærilegu,“ segir í svarbréfi Davíðs Oddssonar.