Davíð Oddsson, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, sagði á fundi seðlabankastjóra í Basel í Sviss að hann teldi líklegt að hækka þurfi enn frekar stýrivexti.

Davíð situr nú fund seðlabankastjóra, sem haldinn á vegum Bank for International Settlements (BIS). Slíkir fundir eru haldnir á tveggja mánaða fresti og eru sóttir af bankastjórum helstu seðlabanka heims.

Sérfræðingar segja að ummæli Davíðs hafi orðið til styrkingar krónunnar í morgun, en krónan hafði styrkst um 0,15% á hádegi. Um rétt fyrir klukkan þrjú hefur krónan styrkst um 0,85%

Alþjóðafréttaveitan Market News International greindi frá því að aðstoðarseðlabankastjóri íslenska Seðlabankans hefði sagt að ákveðið hefði verið að hækka stýrivextina. Nú er talið að fréttaveitan hafi mistúlkað orð aðstoðarseðlabankstjóra, sem er Ingimundur Friðriksson.

Eiríkur Guðnason, einn þriggja bankastjóra Seðlabankans, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í morgun að ekki sé búið að ákveða að hækka stýrivexti, eins og Market News International greindi frá í morgun.

"Það er ekki búið að ákveða eitt eða neitt," sagði Eiríkur. Hann bætti við að útlit væri fyrir að auka þyrfti aðhald og að sú þróun sem orðið hefur síðan bankinn birti síðustu verðbólguspá sína hafi ekki orðið til þess að fegra myndina.

Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 18. maí og búast flestir sérfræðingar við að bankinn muni tilkynna um hækkun stýrivaxta þá, en vextirnir standa nú í 11,5%.

Verðbólga á ársgrundvelli er 5,5%, miðað við síðustu tölur Hagstofu Íslands frá því í apríl, en verðbólgumarkmið bankans er 2,5%.