David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í breska þinginu í dag misnotkun starfsmanna Barclays-banka með millibankavexti hneyksli og boðaði að nefnd á vegum þingsins muni rannsaka málið frekar. Breska útvarpið, BBC, hefur m.a. eftir Cameron að markmið úttektarinnar verði að tryggja að í Bretlandi verði tekið hart á brotum innan fjármálageirans.

Ed Miliband, formaður Verkamannaflokksins, sagði úttektina ekki ganga nógu langt og mælti frekar með því að aðilar óháðir bæði þingi og fjármálageiranum taki málið upp á sína arma.

BBC hefur jafnframt eftir Nick Robinson, stjórnamálaskýranda útvarpsins, að úttektin verði ekki framkvæmd fyrir opnum tjöldum eins og úttektin á símahlerunarmálum breska dagblaðsins New of the World.