Íslenska ríkið þarf að greiða fyrrverandi ráðuneytisstjóra, og síðar sendifulltrúa Íslands á sviði alþjóðaheilbrigðismála, tvær milljónir króna vegna þess hvernig staðið var að uppsögn hans eftir hrun. Þessu greinir RÚV frá.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið í gær til að greiða Davíð Á. Gunnarssyni tvær milljónir króna í miskabætur. Þetta var vegna uppsagnar hans snemma árs 2009. Davíð hafði áður starfað sem ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu en starfaði á þessum tíma sem sérstakur sendifulltrúi alþjóða heilbrigðismála í utanríkisráðuneytinu. Uppsögn hans var hluti af niðurskurði eftir efnahagshrunið og tók gildi samstundis en Davíð fékk greidd laun í eitt ár.

Davíð krafðist bóta þar sem hann taldi að uppsögn sín stafaði af því að eitthvað væri að í hans fari en ekki vegna niðurskurðar. Það gerði honum erfiðara fyrir en ella að fá starf. Dómarinn samþykkti þá kröfu. Í dómnum segir að um hafi verið að nánast fyrirvaralausa uppsögn, en hún tók gildi þremur dögum eftir að Davíð var tilkynnt um hana. Ríkið tilkynnti honum ekki ástæður hennar og honum gafst ekki ráðrúm til að sinna eðlilegum starfslokastörfum erlendis.

Davíð krafðist einnig greiðslu launa í námsleyfi í ellefu mánuði. Hann hafði öðlast rétt til námsleyfis í störfum sínum sem ráðuneytisstjóri og í minnisblaði vegna flutnings hans til starfa hjá utanríkisráðuneytinu kom fram að hann héldi þessum rétti. Ríkið taldi þann rétt hins vegar falla niður við uppsögn hans. Dómara þótti ekki sýnt fram á að gengið hefði verið frá bindandi samningi eða samkomulagi um þetta. Að auki öðluðust embættismenn rétt til tveggja vikna námsleyfis á ári en ekki sé gefið að sá réttur safnist upp sé hann ekki nýttur á hverju ári. Námsleyfi er háð samþykki ráðherra og ekki var sýnt fram á að slíkt samþykki hafi legið fyrir, þó Davíð hafi verið búinn að óska eftir námsleyfi áður en honum var sagt upp.