Davíð Gunnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Dohop ehf. Hann tekur við starfinu af Kristjáni Guðna Bjarnasyni sem hefur stýrt félaginu frá því á vormánuðum 2010. Kristján verður þó áfram hjá Dohop, nú sem tæknistjóri og stýrir allri vöruþróun og tæknimálum.

„Félagið stendur á ákveðnum tímamótum og segja má að nú sé að hefjast næsta vaxtartímabil í sögu Dohop. Við þurfum að leggja enn meiri áherslu á tæknina okkar og vöruþróun og ég get nú einbeitt mér að því,“ segir Kristján Guðni fráfarandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Davíð hefur verið hjá Dohop frá ársbyrjun 2009, að undanskildu árinu 2013 þegar hann starfaði um skeið hjá HF Verðbréfum. Davíð var upphaflega ráðinn til Dohop sem markaðsstjóri en hefur einnig sinnt sölu, viðskiptaþróun og tekjustjórnun ásamt því að taka virkan þátt í vöruþróun. Davíð vann hjá Kaupþingi á árunum 2005 til 2008, en var þar áður formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

„Við ætlum að vaxa hratt á næstu árum, bæta við fólki bæði hér heima og erlendis og sækja fram á nýjum mörkuðum. Við vorum að ljúka besta rekstrarári í sögu félagsins og framundan eru mörg tækifæri sem blasa við,“ segir Davíð.