Vínframleiðandinn Diageo, sem á m.a. Johnnie Walker og Guinnes, tilkynnti í dag að forstjóri fyrirtækisins til síðustu tíu ára, Sir Ivan Menezes, hefði ákveðið að láta af störfum. Debra Crew tekur við stöðunni og verður þar með tíundi kvenforstjórinn meðal FTSE 100 fyrirtækja.

Ráðning Crew, sem starfar í dag sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs fyrirtækisins, var í samræmi við væntingar markaðarins. Hún hefur einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra Diageo í Norður-Ameríku.

Um 28 þúsund manns starfa hjá Diageo á alþjóðavísu. Fyrirtækið á fleiri en 200 vörumerki. Auk Walker og Guinnes selur fyrirtækið áfengi undir merkjum Tanqueray, Baileys, Smirnoff og Captain Morgan.

Hóf feril sinn hjá bandaríska hernum

Áður en Crew hóf störf hjá Diageo starfaði hún sem forstjóri tóbaksfyrirtækisins Reynolds American. Hún starfaði einnig um fjögurra ára skeð hjá PepsiCo ásamt því að gegna stjórnunarstöðum hjá Kraft Foods, Nestlé og Mars.

Crew hóf feril sinn hjá leyniþjónustu bandaríska hersins en hún starfaði ‏þar á árunum 1993-1997.