deCODE Genetics, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, hefur lýst því yfir að það kunni að gefa út hlutabréf, forgangshlutabréf, skuldabréf og önnur verðbréf fyrir allt að 100 milljónir dollara, eða sem nemur tæpum 6,5 milljörðum íslenskra króna, að því er fram kemur hjá fréttastofu Reuters.

Fyrirtækið hefur sótt um "skúffuskráningu" (e. "shelf registration") hjá bandaríska fjármálaeftirlitinu í þessum tilgangi og segist ætla að nota féð, ef af verður, til almenns reksturs.

Reglur um skúffuskráningu leyfa að fyrirtækið selji verðbréfin hvenær sem það vill, í hvaða magni og á hvaða verði sem það vill á þeim tíma sem það ákveður að selja þau.