deCODE genetics, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, hefur hafið framleiðslu á deCODE T2? greiningartækinu sem ætlað er að greina sykursýki 2 hjá fullorðnum. Í tilkynningu félagsins kemur fram að það telur að greiningartækið geti orðið mikilvægt hjálpartæki til að greina sykursýki 2 sem stundum er kölluð áunnin sykursýki.

Greiningartækið byggir á erfðafræðirannsóknum sem deCODE birti í febrúar í fyrra en þá var greint frá uppgötvunum á erfðavísi sem eykur til muna hættuna á því að fá áunna sykursýki.

Þeir sem eru með þennan breytileika á erfðavísi eru þó ekki dæmdir til þess að fá áunna sykursýki og þeir sem ekki hafa breytileikann eru ekki sloppnir með skrekkinn. Erfðavísirinn er til staðar í 21% þeirra tilvika þegar fólk fær áunna sykursýki. Meira en þriðjungur Bandaríkjamanna hefur erft eitt slíkt gen frá öðru hvoru foreldra sinna, en menn hafa tvö eintök af hverju geni í líkamsfrumum sínum og geta því haft tvö ólík eintök af sama geninu. Hættan á því að fá áunna sykursýki eykst um 1,4% hjá þeim sem hafa erft eitt slíkt gen en hættan tvöfaldast ef viðkomandi hefur erft tvö gen, eitt frá hvoru foreldri. 7 til 10% Bandaríkjamanna hafa bæði genin en þættir eins og offita geta einnig haft áhrif á það hvort fólk fær sjúkdóminn eða ekki.


"Þessi sjúkdómur virðist vera orðinn að faraldri, að minnsta kosti í Bandaríkjunum. Á síðasta ári voru líklega fimm til tíu fermetrar af greinum á forsíðu New York Times um sykursýki fullorðinna, sem er einn af þessum sjúkdómum sem virðist fylgja velmegun. Áhættan af því að hafa þennan tiltekna breytileika er meiri en af offitu, þannig að þetta er mjög mikill áhættuþáttur og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir fólk að geta fengið hann metinn þannig að það geti brugðist við. Rannsóknir benda til þess að þeir sem eru með áhættuna á grundvelli þessa breytileika eigi auðveldara með að hafa áhrif á líkurnar á því að fá sjúkdóminn heldur en fólk sem er með áhættu af öðrum þáttum. Þannig að þetta á að geta leitt til þess að menn geti ekki bara metið áhættu heldur brugðist við henni líka,? sagði Kári Stefánsson í viðtali við Viðskiptablaðið síðastliðin föstudag þegar fjallað var um greiningartækið.

Í viðtalinu kom fram að þjónusta af þessu tagi styttir leið fyrirtækisins að tekjum og hefur orðið öðrum líftæknifyrirtækjum drjúg tekjulind. "Þótt við leggjum megináherslu á að koma lyfjum á markað er þetta svo sannarlega þjónusta sem er eðlilegt að við bjóðum, ekki síst vegna þess að hún byggir að mestu á aðstöðu sem við höfum nú þegar fjárfest í," segir Kári.

"Við erum með geysilega öfluga erfðafræðimaskínu hérna inni og síðan við byrjuðum að vinna með nýja tækni í ágústmánuði hefur orðið bylting í möguleikum okkar á að einangra erfðavísa hratt. Við höfum einangrað næstum einn á viku í algengari sjúkdómunum síðan í janúar og stór hundraðshluti þessara uppgötvana er þess eðlis að það er auðvelt að búa til úr þeim greiningatæki. Ég vonast til þess að við verðum búin að koma þremur til fimm svona greiningartækjum á markað fyrir vorið 2008 en reikna þó ekki með að þetta verði farið að búa til fyrir okkur marktækar tekjur fyrr en í lok næsta árs. Ég get í raun ekki tjáð mig um það fyrr en í byrjun næsta árs hvaða tekjuvæntingar eru eðlilegar en mér finnst líklegt að sum af þessum prófum, sérstaklega þau sem lúta að lífsstílssjúkdómum eins og sykursýki, fái tiltölulega góðar móttökur, einkum í Bandaríkjunum," segir Kári í viðtalinu.