Tveir prófessorar við stofnun Ludwig Von Mises hafa skrifað bók um „sorglega sögu íslenskra stjórnvalda - um sköpun gervivaxtar og ofsafengið fall sem var óhjákvæmilegt,“ líkt og segir í formála bókarinnar.

Ludwig von Mises er einn upphafsmanna austurríska skólans , sem kennir sig við frjálsa markaði. Stofnun Ludwig Von Mises er akademísk stofnun sem einblínir á rannsóknir tengdum kenningum austurríska skólans. Þá veitir stofnunin styrki til náms á svði hagfræði, heimspeki og stjórnmálahagfræði.

Í formála bókarinnar segir að lítið hafi áunnist síðan Mises og Hayek, tveir af þekktustu hagfræðingum 20. aldarinnar, lögðu fram kenningar sem á ensku heitir Business cycle theory . Segir að kenningin eigi sérstaklega vel við um Ísland. Bókin Deep Freeze fjallar því um ris og fall íslenska hagkerfisins út frá sjónarhorni austurríska skólans.

Sá er skrifar inngang bókarinnar heitir Toby Baxendale og starfar sem fiskheildsali í Bretlandi. Hann segist þekkja vel til Íslands, enda sé íslenskur fiskur líklega um 10% af vörum hans. „Í um tuttugu ár hef ég átt í samskiptum við ýmsa innan íslenska sjávarútvegsins," segir Baxendale og bætir við á Íslandi hafi sjómenn breyst í bankamenn. Hann segir Íslendinga harðduglega. „Ég vil ekki alhæfa um heila þjóð, en Íslendingar eru erfingjar víkinganna: Þeir búa við afar erfitt umhverfi og þeir munu snúa málum sér í hag mjög skjótt ef stjórnvöld gefa tækifæri til þess.“

Bagus og Howden, höfundar bókarinnar sem er um 150 blaðsíður að lengd, lýsa því hvernig íslenskt atvinnulíf var hvatt til þess að taka lán í erlendum myntum. Í formálanum segir að eitt stærsta vandamálið sé að bankarnir hafi eignast gjaldþrota fyrirtæki á sama tíma og ríkið eignaðist bankana. „Stjórnvöld, sem vilja ekki að fiskveiðikvóti endi í höndum erlendra aðila, vildu ekki og vilja ekki enn leyfa bönkunum að fara í gjaldþrot.“

Bókina má lesa hér .