Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur verið ráðið af skilanefnd Glitnis til að komast að því hvernig það gat gerst að skuldabréf útgefin af bankanum upp á 139 milljarða króna voru ekki færð í bókhald bankans.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að stefnt sé á að ljúka rannsókn á málinu um miðja næstu viku. Upphæðin nemur um fimm prósent af heildarskuldum gamla Glitnis.

Kom í ljós við samkeyrslu

Morgunblaðið greindi frá því í dag að skuldabréf upp 752 milljónir evra, 139 miljarða króna, hefðu ekki verið færð sem skuld í bókhaldi Glitnis. Ekki hefur fengist uppgefið hvenær skuldabréfin voru gefin út né hverjir keyptu þau upphaflega.

Málið kom upp fyrir nokkrum dögum þegar skilanefnd Glitnis samkeyrði skuldabréfaútgáfu sína við skráningar hjá svokölluðum clearing houses, en það eru greiðslujöfnunarstöðvar þar sem bankar leggja fram ávísanir, reikninga og skuldabréf hver á annan. Bréfin vor seld í tengslum við lánaviðskipti, líklega endurhverf viðskipti, og því ekki seld á markaði. Þau hafa því að öllum líkindum verið lögð fram sem veð gegn aðgagni að lausafé.

Mögulega bókað undir öðrum liðum

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er verið að kanna hvort að skuldabréfin hafi mögulega verið bókuð undir öðrum liðum en þau hefðu átt að vera bókuð í bókhaldi Glitnis. Kröfuhöfum bankans hefur verið tilkynnt um málið þar enda er enn verið að versla með skuldabréf útgefin af Glitni. Þau viðskipti byggja á mögulegum endurheimtum og því ljóst að „týndur“ skuldabréfaflokkur upp á 139 milljarða króna getur haft áhrif á virði skuldabréfanna í slíkum viðskiptum.