Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines sem fyrr á þessu ári gekk frá samruna við Northwest Airlines mun á næstunni bjóða farþegum sínum upp á Wi-Fi nettengingu á meðan flugi stendur.

Reuters fréttastofan greinir frá þessu en þar kemur fram að flugfélagið mun setja upp nettengingu í öllum vélum sínum sem sinna innanlandsflugi innan Bandaríkjanna eða um 330 flugvélum.

„Frá og með haustinu geta farþegar okkar verið í netsambandi á meðan flugi stendur hér innan Bandaríkjanna,“ sagði Richard Anderson, forstjóri Delta Air.

Netaðgangurinn verður þó ekki alveg ókeypis fyrir þá sem ætla sér að nýta hann. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn verði tæpir 10 dollarar fyrir þriggja tíma flug og minna en tæpir 13 dollarar fyrir lengri flug.

Gert er ráð fyrir að uppsetningunni verði lokið næsta sumar og þar með verði allar vélar félagsins í innanlandsflugi nettengdar.