Bandaríska flugfélagið Delta hefur keypt 49% hlut í breska flugfélaginu Virgin Atlantic af Singapore Airlines fyrir 360 milljónir dala, jafnvirði rúmra 45 milljarða íslenskra króna. Með kaupunum opnast frekara aðgengi Delta að Heathrow-velli í Bretlandi.

Á vef bandaríska dagblaðsins The New York Times kemur fram að Singapore Airlines hafi keypt hlutinn í Virgin Atlantic árið 2000 fyrir rétt tæpan einn milljarða dala. Uppskeran af fjárfestingunni hafi hins vegar verið rýr. Þá segir að Delta hafi borið víurnar í hlutinn fyrir tveimur árum. Ekki hafi hins vegar náðst samkomulag um verðið.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki samkeppniseftirlitsaðila beggja vegna Atlantsála.

Breski auðkýfingurinn sir Richard Branson á það sem stendur út af eignarhlutnum í félaginu. Fram hefur komið, s.s. á vef vb.is , að hann hyggist ekki selja sinn hlut.