Deutsche Bank hefur að undanförnu staðið fyrir skuldabréfaútgáfu á Landsvirkjun með það að leiðarljósi að kanna áhugann á bréfunum og þá helst hvaða kjör bjóðast á erlendum mörkuðum. Kjörin sem hafa boðist á bréf til fimm til sjö ára, eru Libor-vextir, þ.e. vextir á millibankamarkaði í London, að viðbættu 5,5% álagi. Þau kjör teljast slæm og ekki ásættanleg til lengri tíma.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa aðrir erlendir stórir bankar einnig sýnt því áhuga að liðka fyrir fjármögnun fyrir Landsvirkjun. Eru þeir hluti af um 20 bönkum sem aðild eiga að sambankalánum til fyrirtækisins. Í þeim hópi eru JP Morgan, Sumitomo, SEB, Barclays og fleiri. Einkum er verið að huga að þessum fjármögnunarþáttum nú þar sem Landsvirkjun þarf að endurfjármagna skuldir á árinu 2012 og þá helst með lántökum erlendis. En til þess að það gangi eftir þurfa kjörin að vera betri en nú eru boði. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, vildi ekki tjá sig um samskipti Landsvirkjunar við lánadrottna þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum. Hann sagði fyrirtækið sífellt vera að leita leiða til þess að útvega lánsfé á góðum kjörum.