Hollywoodleikarinn Leonardo DiCaprio hefur stofnað lið í Formúlu E kappakstursdeildinni í Mónakó. Hann stofnaði liðið með Gildo Pallanca Pastor, eiganda Venturi Automobiles. Það fyrirtæki sérhæfir sig í framleiðslu rafbíla.

Keppni í Formúlu E hefst á næsta ári. Yfirlýst markmið með kappakstrinum er að auka áhuga á rafbílum. Það er ekki síst vegna áhuga DiCaprio á umhverfismálum sem hann tekur þátt. „Framtíð plánetu okkar veltur á því hvort við getum notað farartæki úr hreinni orku,“ sagði DiCaprio samkvæmt frásögn BBC .