Dögg Hjaltalín hefur verið ráðin verslunarstjóri Bókabúðar Máls og menningar. Í tilkynningu segir að Dögg haffi verið bóksali erlendra titla í Bókabúð Máls og menningar frá því í október á síðasta ári. „Ég er full tilhlökkunar að taka við starfinu enda er Bókabúð Máls og menningar virtasta, stærsta og fjölbreyttasta bókabúð landsins og leggjum við áherslu á og metnað okkar í að bjóða upp á besta úrval landsins af bókum. Við erum mjög stolt af því að hafa nýlega verið valin ein af 12 bestu bókabúðum í heimi og ætlum við okkur svo sannarlega að halda áfram að fá slíkar viðurkenningar,“ er haft eftir Dögg.

Dögg Hjaltalín rak áður Skuld viðskiptabókabúð sem sameinaðist Bókabúð Máls og menningar í fyrra. Dögg er viðskiptafræðingur og starfaði hjá Eimskip áður en hún hóf rekstur Skuldar viðskiptabókabúðar. Þar áður starfaði hún sem blaðamaður á Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins og Viðskiptablaðinu.

„Bókabúð Máls og menningar var nýlega valin ein af 12 bestu bókabúðum í heimi af Berlingske Tidende. Í umfjöllun Berlingske Tidende um Bókabúð Máls og menningar segir að þar ríki góð stemning og búðin sjálf sé vitni um íslenska sagnahefð og að búðin sjálf hafi menningarlegt gildi. Einnig er minnst á að á annarri hæð sé gott úrval að bókum á ensku sem nái langt út fyrir alþjóðlegar metsölubæku," segir í tilkynningu frá Bókabúð Máls og menningar.